Atorka-samtök atvinnurekenda á Suðurlandi voru stofnuð í Inghól á Selfossi, 7.maí 1992.
Aðdragandann að stofnun samtakanna má rekja til vinnu sem fram fór í Atvinnumálanefnd Selfoss misserin á undan, en sú vinna var ma.byggð á könnun sem gerð meðal fyrirtækja á svæðinu, þar sem spurt var m.a. um það hvað mönnum þætti helst vanta svo bæta mætti og styrkja atvinnulíf svæðisins, svo og bæta samkeppnisstöðu sunnlenskra fyrirtækja.
Fyrsta stjórn samtakanna var mönnuð þeim Þorsteini Ásmundssyni hjá Suðurgarði sem gegndi formennsku fyrstu árin, Birgi Guðmundssyni mjólkurbússtjóra, Pétri Reimarssyni hjá Árnesi, Bergsteini Einarssyni hjá Set og Guðmundi Ingvarssyni hjá G-verki.
Atorka er samtök fyrirtækja, einstaklinga og félaga eða samtaka þeirra á Suðurlandi sem stunda viðskipti á samkeppnisgrundvelli, eins og segir í stofnsamþykktum samtakanna.
Í annarri greina samþykktanna segir að markmið Atorku sé að vinna að framfaramálum atvinnulífs á svæðinu á öllum sviðum, og vera vettvangur fyrir hugmyndir og umræður um málefni því tengdu. Atorka skal m.a. vinna að samstarfi og samvinnu fyrirtækja, samstarfi við opinbera aðila, fræðslu og gæðamálum, öryggis og vinnuverndarmálum, samgöngu- skipulags- umhverfis- og orkumálum.