Starfamessa 2017 – lokaskýrsla

Framgangur verkefnis

Þriðjudaginn 14.mars síðastliðinn var haldin í annað skiptið Starfamessa, áhersluverkefni sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í samstarfi við Atorku – samtaka atvinnurekenda á Suðurlandi og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Til messunnar var boðið öllum 9. og 10. bekkjum grunnskólanna og 1. og 2. bekk framhaldsskólanna og var þátttaka þeirra framar vonum þrátt fyrir að Vestmannaeyjar hafið forfallast á síðustu stundu vegna veðurs.

Það þó var ekki annað sjá en að þeir sem á messuna komu hafi haft gagn og gaman að og viðbrögð bæði skólanna og aðstandenda fyrirtækjanna eftir messuna ríma við þá upplifun verkefnastjóra.

Samstarf við kynnendur

Á messunni voru kynntar um 40 náms- og starfsleiðir í iðn-, verk- og tæknigreinum en hugmyndafræðin sem unnið er með gengur út á að nemendurnir hitti bæði forsvarmenn starfsgreinanna sem og aðstandendur námsins á bak við þær greinar. Þannig öðlast þeir innsýn í ferlið  allt frá námi og inn í fyrirtækin sem þar sem störfin eru unnin.

Auk þeirra starfsgreina og fyrirtækja og kynntu sig á messunni var mjög góð þátttaka þeirra skóla sem kenna greinarnar svo sem Tækniskólinn, Keilir, Garðyrkjudeild LBHÍ, Fisktækniskólinn, Hótel og matvælaskóli MK auk Fjölbrautaskóla Suðurlands ásamt IÐUNNI og Fræðslunetinu sem vinna að framhalds- og fullorðinsfræðslu.

Kynnendur voru á tveimur stöðum, í aðalsal Odda og í nýju verknámshúsi Hamars. Jafnframt var ákveðið að nota tækifærið og vígja Hamar formlega enda eru aðstandendur ákaflega stoltir af nýju verknámshúsi. Vígslan var vel sótt og ljóst að gestir kunnu vel að meta þessa aðstöðu sem iðn-, verk- og tæknigreinar hafa nú fengið innan veggja Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Vígslan hafði þó þau áhrif að minna var um fólk í Odda á meðan á vígslunni stóð og jafnframt var aðeins lítill hluti sem þangað sótti eftir vígsluna öfugt við það sem vonast hafði verið til.

Jafnframt hafði sú ákvörðun að halda messuna á tveimur stöðum þær afleiðingar að dreifing nemenda var meiri sem var sérstaklega áberandi í Odda þar sem um eitt stórt rými er að ræða og því sýnilegra hversu mikill fjöldi er hverju sinni. Það skal þó tekið fram að fleiri nemendur sóttu messuna nú en áður.

Ákveðið var að hafa ekki sameiginlegan uppgjörsfund með kynnendum heldur eiga samtal beint við þá með heimsóknum og/eða símtölum. Punktarnir sem komu út úr þeim samtölum verða nýttir til þess að vinna verkefnisáætun fyrir næstu starfamessu. Kynnendum var jafnframt afhentur USB lykill sem innihélt ýmislegt efni varðandi messuna svo sem myndband sem tekið var upp á messunni sjálfri, nemendamyndböndin, umfjöllun landans um messuna auk ljósmynda frá deginum sjálfum. Þetta efni verður jafnframt hægt að nálgast inn á heimasíðu SASS (www.sass.is). Í framhaldinu er svo fyrirhugað að vera með málþing um framtíð iðn-, verk- og tæknináms á Suðurlandi, þangað sem við viljum fá sem flesta kynnendur til þess að taka þátt í að móta framtíðarsýn um málaflokkinn.

Samstarf við grunn- og framhaldsskóla

Mikil áhersla var lögð á að eiga í miklu og góðu samstarfi við skólana og þá sérstaklega grunnskólana. Verkefnastjóri var í beinu sambandi við bæði þá kennara sem héldu utanum nemendahópinn innan skólanna sem og starfs- og námsráðgjafa skólanna. Jafnframt var farið af stað með nemendaverkefni sem fólst í því að nemendur 9. og 10. Bekkja grunnskólanna fengu úthlutað starfsgrein til þess að vinna um stutt myndband þar sem þau gerðu greininni skil á sinn hátt. Myndböndin voru unnin í samstarfi við fyrirtæki innan greinarinnar og þótti það verkefni koma skemmtilega út. Eftir stóðu átta myndbönd um ólíkar starfsgreinar og á messunni veitti svo Atorka þremur áhugaverðustu myndböndunum vegleg verðlaun. Af viðtökunum að dæma má ætla að þátttaka í viðlíka verkefni verð enn meiri á næstu starfamessu.

Eftir fyrstu messuna kom upp sú ósk að foreldrar hefðu betra tækifæri á að koma á messuna og kynnast greinunum eins og nemendurnir svo hægt væri að taka samtalið um „hvað á ég að verða þegar ég verð stór“ á réttari forsendum heima fyrir. Farin var sú leið að hafa messuna opna lengur yfir daginn og bjóða öllum foreldrum og öðrum aðstandendum sérstaklega í gegnum skólana. Það skilaði sér að mjög litlu leiti og þarf því að huga að annarri nálgun fyrir næstu messu.

Að lokinni messu óskaði verkefnisstjóri eftir punktum frá kennurum og náms-og starfsráðgjöfum um upplifun þeirra sem og nemendanna sjálfra af messunni.  Það voru einstaklega gagnlegir punktar sem gáfu góða yfirsýn yfir það vel var gert og hverju mætti frekar huga að. Verða þeir punktar að sama skapi nýttir til þess að vinna næstu verkefnisáætlun.

Í samtali við bæði kynnendur og aðstandendur skólanna eftir messuna kom einnig fram mikill áhugi þessara aðila á að vinna enn betur saman í aðdraganda messunnar, hvort sem er með því að þróa einhver verkefni, undirbúa heimsóknir eða annað sem hentar hverju sinni. Verður því lög sérstök áhersla á það við undirbúning næstu messu.

 

Helstu punktar varðandi komandi messur

  • Nauðsynlegt er að halda svona messu aftur – það tekur nokkur skipti ef safna á gögnum svo hægt sé að mæla árangur. Svona verkefni ættu alltaf að vera hugsuð til lengri tíma
  • Enn má bæta í forvinnu skóla og fyrirtækja og efla það samtal enn frekar
  • Vinna enn áhugaverðari nemendaverkefni á staðnum – helst í samstarfi við fyrirtækin
  • Finna leið til þess að hafa alla kynnendur undir sama þaki og helst þannig að starfsgreinarnar geti kynnt sig í sínu „náttúrulega umhverfi“ innan verkgreinastofa í Hamri
  • Skoða hvort „skóla slottin“ mættu styttast – úr 2klst í 1,5klst
  • Skoða hvort aðrar dagsetningar henti betur – annar tími ársins. Þetta þarf að skoðast samhliða skóladagatölum grunnskólanna og íslandsmeistarakeppni iðngreinanna ásamt örðum þáttum
  • Nýta samfélagsmiðla ef messan verður opin almenningi á sama tíma og nemendum er boðið

Verkefnastjórn

Helstu samstarfsaðilar verkefnastjóra voru Sigurður Þór formaður Atorku en hann vann samhliða verkefnastjóra að því að koma messunni á, og Fjölbrautaskóli Suðurlands sem bæði hýsti samkomuna og lagði mikið af mörkum við kynningu á þeim greinum sem þar eru kenndar.

Kostnaður við verkefnið

Útlagður kostnaður við verkefnið var um 1.130.000kr og vinna verkefnisstjóra um 400 stundir eða um 2.800.000kr

Vinna formanns Atorku var um 250 stundir en var það þeirra framlag inn í verkefnið og því ekki rukkað fyrir það.

Að lokum

Verkefni eins og Starfamessan er langhlaup og hver messa gefur okkur tækifæri til þróast og þroskast, verkefninu til góða. Það skiptir miklu máli að vera í góðu samtali og samstarfi við alla aðila sem koma að slíku verkefni og hlusta eftir því vel er gert sem og því sem betur má fara.

Samtöl við bæði skólana og kynnendurna gefa okkur innlegg til þess að gera enn betur næst og málþingið um framtíð iðn-, verk- og tækigreina þar sem fengnir verða talsmenn framhaldsskólanna, háskólanna, greinanna, náms- og starfráðgjafa grunn- og framhaldsskólanna, ásamt innleggi um stöðu verkefnis um Fagháskóla, gerir líkt hið sama.  Markmiðið er að halda áfram með samtalið um framtíð áðurnefndra greina og hvað við getum gert til þess að efla þær og gera þeim hærra undir höfði. Ætla má að þetta málþing, sem og önnur verkefni sem styðja við þessa vinnu, verði kveikja að nýjum sterkum átaksverkefnum sem hefðu þetta markmið.

Listi yfir þær greinar kynntar voru á Starfamessu 2017

Bakari
Bátasmíði
Bifvélavirkjun
Bílasprautun
Blikksmíði
Byggingarfræði
Dúklagningar
Ferðamálanám
Fisktækni
Fjarskipti (ljósleiðarar-símvirkjun o.fl..)
Fjölmiðlatækni
Flugnám
Flugvirkjun
Framreiðsla/þjónn
Garðyrkja
Grafísk hönnun
Hársnyrting
Hótelstjórnun
Húsasmíði
Húsgagnahönnun
Járningar
Kerfisfræði
Kjötiðn
Landslagsarkitekt
Leiðsögunám
Ljósmyndun
Matreiðsla
Matvælafræði
Málaraiðn
Meistarskólinn
Mjólkurfræði / ísgerð
Móttaka
Múrverk
Plastiðnaður
Prentun
Rafeindavirkjun
Rafvélavirkjun
Rafvirkjun
Skipstjórn
Snyrtifræði
Stafræn miðlun
Tamningar
Tæknifræði
Tækniteiknun
Tölvunarfræði
Vélsmíði
Vélstjórn
Ævintýraferðamennska