Starfamessa 2017

Atorka og SASS [Sóknaráætlun Suðurlands] standa að Starfamessu sem haldin verður í Fjölbrautaskóla Suðurlands þriðjudaginn 14.mars 2017.

Um er að ræða kynningu á störfum og námsleiðum að þeim, í iðn- verk- og tæknigreinum margskonar.  Til Starfamessunnar er boðið öllum grunnskólanemum í 9. og 10. bekkjum sunnlennlenskar grunnskóla, allt frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í Hornafirði í austri, ásamt 1. og 2. árs nemum framhaldsskóla svæðisins. Einnig verður hluta dagsins opið fyrir foreldra þessara ungmenna svo og almenning. Vonast er til að 1500-2000 manns mæti til messunnar nú.

Kynntar verða a.m.k.  45-50 starfsgreinar og námsleiðir að þeim.  Lögð er áhersla á að sunnlenskir aðilar séu að kynna viðkomandi greinar, þannig að bilið í samtalinu milli áhugasamra námsmanna, skóla og fulltrúa starfsgreina, sé sem minnst og þannig sé auðveldara að taka samtalið áfram að Starfamessu lokinni.

Það verða um 30 aðilar sem standa að þessum kynningum, þá bæði fulltrúar sunnlenskra fyrirtækja, skóla og samtaka, en einnig munu nokkur stærri sunnlensk fyrirtækja kynna sína starfsemi og þá þau fjölbreyttu störf og starfsgreinar sem innan þeirra eru.

Starfamessan nú verður með nokkuð öðru sniði en 2015, þ.e. nú verða settur upp kynningarbásar fyrir hverja starfsgrein eða kynningaraðila og þannig er vonast til að hver og einn kynnandi nái að afmarka sig betur. Umfangið verður líka nokkuð meiri en síðast, þ.e. nú verða kynningar bæði í Odda þ.e. aðalbyggingu FSu, svo og í Hamri, þ.e. nýja verknámshúsinu.

Þær starfsgreinar sem kynntar verða eru m.a. bakaraiðn, bílgreinar (bifvélavirkjun, bílaréttingar, bílamálun), blikksmíði, ferðaþjónusta (framreiðsla, matreiðsla, leiðsögn, akstur, hótelstjórnun ofl.) fjölmiðlatækni, flugmennska, garðyrkja, hársnyrting, hestagreinar, húsasmíði/trésmíði, hönnun (tækniteiknun, tæknifræði, landslagsarkitekt, skartgripahönnun ofl.) málmtækni ( vélsmíði, vélstjórnun, rennismíði), mjólkurfræði, kjötiðn, ljósmyndun, málaraiðn, múrverk, pípulagnir, prentun, plastiðn, rafmagnsgreinar (rafvirkjun, rafeindavirkjun, fjarskipti), snyrtigreinar, skartgripasmíði, söðlasmíði, tölvugreinar (tölvunarfræði, forritun, kerfisfræði) og  upplýsingatækni. Og vonandi eiga svo fleiri greinar eftir að bætast við.

Lögð verður áhersla á að kynningar verði „lifandi“ og ungmennunum verði gefinn kostur á að taka þátt í þrautum og verkefnum margskonar, auk þess að eiga uppbyggilegt samtal við þrautreynda einstaklinga í viðkomandi starfsgrein svo og að heyra upplifun nýútskrifaðra nema í þessum greinum.

Sem hluti af þátttöku nemenda í Starfamessu 2017, er að vinna myndbönd um viðkomandi starfsgreinar, en skólum og eða nemdahópum hefur verið úthlutað starfsgrein sem þau vinna myndband um. Þrjú bestu myndböndin verða svo verðlaunuð með m.a. veglegum peningaverðlaunum.

Starfamessan 2015 þóttist takast með eindæmum vel og því var ákveðið að endurtaka leikinn nú og vonandi svo áfram á a.m.k. tveggja ára fresti.

Verkefnastjóri Starfamessu 2017 er Ingunn Jónsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands, ingunn@hfsu.is